Tennisreglur

Efnisyfirlit

Einliðaleiksreglur

Regla 1: Vallarmál og útbúnaður

TennisvöllurVöllurinn er ferhyrndur, 23,77 m á lengd og 8,23 m á breidd. Honum skal skipt þvert í miðju með neti sem haldið er uppi af snúru eða vír. Ummál vírsins má ekki vera meira en 0,85 cm. Endar hans skulu festir við eða strengdir yfir toppinn á tveimur stólpum, sem eru 1,07 m á hæð og ekki meira en 15 cm í þvermál. Þessir stólpar mega ekki ná hærra en 2,3 cm yfir efri brún vírsins. Miðja stólpannaer 0,914 m fyrir utan völlinn sitt hvorum megin. Þegar einliðaleikur er leikinn á tvíliðaleiksvelli (sjá reglu 34) er netinu haldið uppi í 1,07 m hæð með tveimur súlum, kallaðar einliðaleikssúlur, sem eru ekki meira en 7,5 cm í þvermál. Miðja hvorrar einliðaleikssúlu er 0,914 m utan við einliðaleiksvöllinn, sitt hvorum megin.Hæð netsins í miðju er 0,914 m og haldið þar niðri með hvítri reim sem ekki má vera meira en 5 cm á breidd. Hvít brydding sem hylur vírinn og efri brún netsins báðum megin nær ekki minna en 5 cm og ekki meira en 6,3 cm niður á netið. Netinu er krækt í báða stólpana og ætti að snerta jörðu alla leið á milli þeirra. Línurnar sem afmarka enda og hliðar vallarins kallast enda- og hliðarlínur. Báðum megin við netið í 6,40 m fjarlægð, og samsíað því, eru gjaflínurnar dregnar. Fletinum sitt hvorum megin við netið sem afmarkast af gjaflínu og hliðarlínum er skipt í tvo jafna reiti, gjafreiti, með 5 cm breiðri miðlínu, sem dregin er mitt á milli og samsíða hliðarlínunum. Hvorri endalínu um sig er skipt í tvo jafna helminga með 10 cm löngu og 5 cm breiðu striki. Strikið kallast stubbur, og er dregið hornrétt á endalínurnar innan vallar. Allar aðrar línur verða að vera meira en 2,5 cm á breidd en minna en 5 cm, að undanskildum endalínum. Þær mega vera 10 cm breiðar. Við allar mælingar ber að mæla að ytra borði línanna. Allar línur verða að vera eins á litinn.

Engar auglýsingar eru leyfðar á netinu, reiminni, bryddingu eða einliðaleikssúlunum. Auglýsingar fyrir aftan endalínur og á stólum línuvarða fyrir aftan endalínur mega ekki hafa hvíta eða gula liti. Ljósa liti má aðeins nota ef þeir trufla ekki.

Athugasemd: Fyrir “Davis Cup” og önnur opinber mót Alþjóðatennissambandsins (ITF) verða að vera að minnsta kosti 6,4 m fyrir aftan endalínur og að minnsta kosti 3,66 m út frá hliðarlínum. Stólar línuvarða mega vera inni á þessu svæði þó ekki meira en 0,914 m.

Ábending: Gott er að merkja einliðaleikssúlurnar í 0,914 m hæð þannig að hægt sé að mæla hæð netsins í miðju. Þessar mælingar ættu að eiga sér stað áður en mikilvægur leikur fer fram.

Regla 2: Fastir fylgihlutir

Fastir fylgihlutir vallarins eru ekki einungis netið, stólparnir, vírinn, reimin og bryddingin, heldur einnig girðingar, áhorfendastúkur, bekkir og stólar umhverfis völlinn og þeir sem í þeim sitja, allir aðrir hlutir umhverfis völlinn og yfir vellinum, svo og dómarar, línuverðir og boltasækir.

Regla 3: Boltinn

Boltinn á að hafa jafnt ytra yfirborð, þráðlausa sauma og vera gulur eða hvítur. Ummál boltans má ekki vera minna en 6,35 cm og ekki meira en 6,67 cm. Hann má ekki vega minna en 56,7 g og ekki vera meira en 58,5 g. Þegar hann er látinn falla úr 2,54 m hæð á steyptan flöt, verður hann að hoppa upp meira en 1,35 m og minna en 1,47. Boltinn þarf einnig að uppfylla ákveðin þrýstingsskilyrði ITF. Tennissamband Íslands gefur upplýsingar um gildandi ákvæði.

Regla 4: Spaðinn

ITF ákveður hvaða skilyrði spaðar skulu uppfylla fyrir tennis. Sérhver leikmaður, framleiðandi eða tennissamband má leita eftir ákvörðun til ITF varðandi notkun spaða. TSÍ gefur upplýsingar um gildandi ákvæði.

Regla 5: Uppgjöf og móttaka

Leikmennirnir standa sitt hvorum megin við netið. Sá leikmaður sem á uppgjöf byrjar og hinn tekur á móti.

Dæmi 1: Tapar leikmaður stigi ef hann fer yfir ímyndaða línu sem er framlenging af netinu a) áður en hann slær boltann, og b) eftir að hann slær boltann?

Ákvörðun: Hann tapar ekki stiginu í hvorugu dæminu fari hann ekki inn á völl andstæðingsins (sjá reglu 20 e)). Varðandi hindrun má andstæðingurinn leita til dómara sbr. reglur 21 og 25.

Dæmi 2: Sá sem á uppgjöf heldur því fram að móttakandi verði að standa innan lína eigins vallarhelmings. Er það rétt?

Ákvörðun: Nei, móttakandi má standa hvar sem hann vill sínum megin við netið.

Regla 6: Val á vallarhelmingi og uppgjafarétti

Valið um vallarhelming og uppgjafarétt skal ákveðið með hlutkesti.

Sá sem vinnur hlutkestið má velja a) eða b) eða láta andstæðinginn velja a) eða b). Valmöguleikarnir eru:

  1. að gefa upp eða að taka á móti og þá má andstæðingurinn velja vallarhelming.
  2. að velja vallarhelming og þá má andstæðingurinn velja að gefa upp eða taka á móti.

Regla 7: Uppgjöf

Uppgjöf skal framkvæma á eftirfarandi hátt: Þegar uppgjöf hefst stendur leikmaðurinn kyrr fyrir aftan endalínu, hvar sem er á milli stubbs og hliðarlínu. Leikmaður lætur boltann úr hendi sér í hvaða átt sem er og slær hann með spaðanum áður en hann kemur við jörðu. Uppgjöfinni er lokið þegar boltinn kemur við boltann. Leikmaður sem hefur aðeins not annarrar handar má nota spaða sinn við að láta boltann í loftið.

Ábending: Uppgjöfin hefst þegar leikmaður með uppgjafaréttinn stillir sér upp fyrir aftan endalínu og endar þegar spaði hans snertir boltann eða þegar honum mistekst að slá boltann.

Dæmi 1: Má leikmaður með uppgjafarétt í einliðaleik standa fyrir aftan endalínu á milli hliðarlína einliða- og tvíliðaleiksvallar?

Ákvörðun: Nei.

Dæmi 2: Tapar leikmaður uppgjöf ef hann stillir upp tveimur eða fleiri boltum í einu?

Ákvörðun: Nei, gefið skal upp að nýju. Telji dómarinn að þetta hafi verið viljandi gert, skal dæmt skv. reglu 21.

Dæmi 3: Má leikmaður gefa upp með undirsveiflu?

Ákvörðun: Já, það eru engin takmörk fyrir því hvaða uppgjöf má nota.

Regla 8: Stöðubrot

Við uppgjöf:

  1. Leikmaður má ekki breyta stöðu sinni með því að ganga eða hlaupa. Leyfilegar eru smáfótahreyfingar sem hafa ekki áhrif á upprunalegu stöðu hans.
  2. Leikmaður verður að vera með báðar fætur fyrir aftan endalínu, milli stubbs og hliðarlínu. (Orðið fótur merkir allt fyrir neðan ökkla).
    Ábending: Í leik með engum dómara má móttakandinn eða meðspilari hans kalla stöðubrot þegar allt annað bregst (aðvörun til andstæðings, kall á dómara o.s.frv) og brotið er mjög áberandi.

Regla 9: Staða við uppgjöf

  1. Við uppgjöf stendur leikmaður fyrir aftan endalínu, hægra eða vinstra megin við stubbinn til skiptis. Fyrsta uppgjöf í hverri lotu skal tekin hægra megin við stubbinn. Ef gefið var upp röngum megin við stubbinn. Ef gefið var upp röngum megin við stubbinn skulu öll stig standa en staða uppgjafar skal leiðrétt um leið og það uppgötvast.
  2. Boltinn frá uppgjöf skal fara yfir netið og lenda í gjafreitnum sem er skáhalt á móti eða á línu sem umlykur þann reit, áður en móttakandinn slær hann til baka.
    Ábending: Móttakandi má ekki slá bolta frá uppgjöf áður en hann lendir í gjafreit á vallarhelmingi sínum.

Regla 10: Röng uppgjöf

Uppgjöfin er röng:

  1. brjóti leikmaður einhver atriði í reglu 7, 8 eða 9,
  2. hitti leikmaður ekki boltann þegar hann reynir að slá hann,
  3. snerti boltinn einhvern fastan fylgihlut vallarins (annað en netið, reimina eða bryddinguna) áður en hann kemur við jörðu.

Dæmi 1: Leikmaður slær ekki bolta sem hann hefur stillt upp fyrir uppgjöf. Er það röng uppgjöf?

Ákvörðun: Nei, svo framarlega sem leikmaður gerir enga tilraun til að slá boltann þá skiptir ekki máli hvort hann grípur boltann í hendi eða á spaða eða lætur hann falla til jarðar.

Dæmi 2: Boltinn hittir einliðaleikssúlu í uppgjöf en lendir í réttum gjafreit. Er það röng uppgjöf?

Ákvörðun: Já, einliðaleikssúlurnar, stólparnir og netið milli þeirra tilheyra föstum fylgihlutum vallarins (sjá reglu 2, 10 og athugasemd í reglu 24).

Ábending: Í leikjum þar sem enginn dómari er, dæmir leikmaður alla bolta á eigin vallarhelmingi. Í tvíliðaleik er venjan að meðspilari móttakanda dæmi varðandi gjaflínuna en móttakandi sjálfur dæmi mið- og hliðarlínur. Báðir leikmenn mega þó dæma bolta sem þeir sá greinilega úti.

Regla 11: Seinni uppgjöf

Ef fyrri uppgjöfin er röng gefur leikmaðurinn seinni uppgjöf frá sama stað (sömu megin við stubbinn), nema þessi uppgjöf hafi verið gefin upp frá röngum stað, sbr. reglu 9, þá er leikmanninum heimil ein uppgjöf frá réttum stað.

Dæmi 1: Leikmaður stendur röngum megin við stubbinn við uppgjöf. Hann tapar stiginu og segist þá eiga rétt á stöðvun (sjá reglu 13) vegna þess að hann gaf upp röngum megin við stubbinn.

Ákvörðun: Stigið stendur og næsta uppgjöf skal gefin réttum megin við stubbinn skv. stigum í lotunni.

Dæmi 2: Stigin standa 15-15. Vegna mistaka gefur leikmaður upp vinstra megin við stubbinn. Hann vinnur stigið. Svo gefur hann upp hægra megin við stubbinn og fyrri uppgjöfin er röng. Mistökin á stöðu hans eru uppgötvuð. Hefur hann rétt á fyrra stigi? Hvorum megin stubbsins á hann að gefa upp næst?

Ákvörðun: Fyrri stig standa. Næsta uppgjöf á að vera vinstra megin við stubbinn, stigin standa 30-15 og leikmaður á einni uppgjöf eftir.

Regla 12: Hvenær má hefja uppgjöf

Leikmaður má ekki gefa upp fyrr en móttakandi er tilbúinn. Reyni móttakandi að slá boltann til baka, er álitið að hann hafi verið tilbúinn. Gefi móttakandi til kynna að hann sé ekki tilbúinn, getur hann ekki krafist þess að uppgjöf sé dæmd röng, þótt boltinn lendi utan gjafreitsins.

Ábending: Sá sem gefur upp verður að bíða þar til móttakandi er tilbúinn fyrir aðra uppgjöf alveg eins og þá fyrri og ef móttakandi segist ekki tilbúinn og gerir enga tilraun til að taka á móti, getur sá sem gefur upp ekki krafist stigsins þrátt fyrir rétta uppgjöf. Þegar móttakandi gefur til kynna að hann sé tilbúinn getur hann ekki breytt því, nema utanaðkomandi truflun eigi sér stað.

Regla 13: Stöðvun

Þegar stöðvun er dæmd er stig ekki skorað.

Í öllum tilfellum þegar stöðvun (stig eða uppgjöf spilað á ný) er dæmd skv. reglum eða til að stoppa leikinn gildir eftirfarandi:

  1. varðandi uppgjöf er eingöngu ein uppgjöf endurtekin.
  2. við allar aðrar aðstæður skal allt stigið endurtekið.

Dæmi 1: Uppgjöf er hindruð af öðrum ástæðum en kemru fram í reglu 14. Er eingöngu ein uppgjöf?

Ákvörðun: Nei, allt stigið er spilað á ný.

Ábending: Verði töf milli fyrri og seinni uppgjafar af völdum móttakandans eða dómara, er stigið spilað á ný. Ef töfin er af völdum leikmannsins sem gefur upp, hefur hans aðeins rétt á seinni uppgjöf. Hróf frá áhorfendum réttlætir ekki stöðvun, en áhorfendur eru áminntir.

Ábending: Dæmi 1 á við seinni uppgjöf og ákvörðunin þýðir að ef truflun á sér stað við seinni uppgjöf fær leikmaður tvær uppgjafir. Kalli línuvörður seinni uppgjöf úti og leiðréttir straxen móttakandinn hefur samt hætt við móttöku boltans, skal stigið spilað á ný. Útskýringin er sú að stöðvun er dæmd eftir að boltinn var kominn í leik. Telji dómarinn hins vegar að kall línuvarðarins hafi ekki átt þátt í því að móttakandinn næði ekki boltanum, þá fær sá sem gaf upp stigið.

Dæmi 2: Eyðileggist bolti í leik, á þá að dæma stöðvun?

Ákvörðun: Já.

Ábending: Að mati dómara, hefur boltinn eyðilagst ef hann hefur misst þrýsting eða af einhverri annarri ástæðu er augljóslega ónothæfur.

Regla 14: Stöðvun í uppgjöf

Stöðvun í uppgjöf er dæmd ef:

  1. boltinn snertir netið, reimina eða bryddinguna en lendir í réttum gjafreit.
  2. boltinn snertir netið, reimina eða bryddinguna en lendir síðan á einhverju sem móttakandinn, einhverju sem móttakandinn er í eða heldur á.
  3. uppgjöf fer fram þegar móttakandinn er ekki tilbúinn (sjá reglu 12) hvort sem uppgjöfin lendir í réttum gjafreit eða ekki. Sé stöðvun dæmd í uppgjöf, gefur leikmaðurinn upp á ný. Stöðvun í uppgjöf ógildir ekki fyrri brot.

Regla 15: Rétt röð í uppgjöf

Eftir hverja lotu fær sá sem var móttakandi uppgjafaréttinn. Skiptast leikmenn þannig á að hafa uppgjafaréttinn út leikinn. Gefi leikmaður upp áður en að honum er komið, skal það leiðrétt strax og mistökin uppgötvast, en öll stig standa eins og komið var. Gefi leikmaðurinn upp aðeins eina ranga uppgjöf áður en mistökin uppgötvast, gildir hún ekki þegar mistökin leiðrétt. Ef lotu er lokið áður en mistökin uppgötvast, fær móttakandi þeirrar lotu uppgjafaréttinn og síðan er haldið áfram að skiptast á um uppgjafaréttinn.

Regla 16: Breyting á vallarstöðu

Leikmenn skipta um vallarhelming þegar summa leikinna lota er oddatala, það er eftir fyrstu lotu, þriðju lotu og svo framvegis í hverju setti. Ef mistök verða, skulu leikmenn taka upp rétta stöðu um leið og þau uppgötvast.

Regla 17: Bolti í leik

Boltinn er í leik um leið og hann er sleginn í uppgjöf. Boltinn er í leik þar til stig er skorað, nema dæmt hafi verið brot eða stöðvun.

Ábending: Stig er ekki skorað þegar bolti fer framhjá eða virðist vera á leiðinni út fyrir enda- eða hliðarlínu. Bolti sem er á leið út er enn í leik þar til hann lendir á jörðu, föstum fylgihlutum (nema neti, stólpum, einliðaleikssúlum, vír, reim og bryddingu) eða leikmanni. Sama gildir um bolta sem hefur lent inn á réttum velli. Bolti sem fer í netið er úr leik.

Dæmi 1: Leikmaður heldur bolta í leik þó að hann hafi lent utan vallar. Getur þessi leikmaður krafist stigsins þegar hrinunni er lokið?

Ákvörðun: Nei hann getur ekki krafist stigs þar sem leikmenn héldu hrinunni áfram, nema hann hafi verið hindraður.

Ábending: Leikmaður B slær bolta frá leikmanni A sem hefur lent utan vallar. Hann verður að kalla hann úti áður en A slær aftur eða áður en hans eigið skot lendir utan vallar.

Dæmi 2: Boltið er skotið í netið. Leikmaðurinn hinum megin við netið heldur að boltinn fari yfir, slær að honum og kemur við netið. Hver tapar stiginu?

Ákvörðun: Ef leikmaðurinn kemur við netið á meðan boltinn er enn í leik tapar hann stiginu.

Regla 18: Sá sem gefur upp vinnur stig

Sá sem gefur upp vinnur stig:

  1. ef boltinn sem var gefinn upp snertir móttakanda eða eitthvað sem hann hefur á sér áður en hann lendir á jörðu, nema um stöðvun sé að ræða, sbr reglu 14.
  2. ef móttakandinn tapar stiginu, sbr. reglu 20.

Regla 19: Móttakandi vinnur stig

Móttakandi vinnur stig:

  1. ef sá sem gefur upp, gefur tvær rangar uppgjafir í röð.
  2. Ef sá sem gefur upp tapar stiginu, sbr. reglu 20.

Regla 20: Leikmaður tapar stigi

Leikmaður tapar stigi:

  1. takist honum ekki að slá boltann yfir netið áður en hann hefur lent tvisvar á jörðu (undantekning sbr. reglu 24 a) eða c))
  2. slái hann boltann svo að hann lendir á jörðu, á föstum fylgihlutum eða einhverju öðru utan þeirra lína sem afmarka vallarhelming andstæðingsins (undantekning sbr. reglu 24 a) eða c))
    Ábending: Leikmaður tapar stiginu slái hann þannig að boltinn lendir á einhverju sem er á stólpunum.
  3. taki hann boltann á lofti og slái hann úr leik, jafnvel þótt hann standi utan vallarins.
  4. haldi hann boltanum á spaðanum af ásettu ráði eða slái tvívegis með spaðanum af ásettu ráði.
    Ábending: Leikmaður tapar stiginu eingöngu ef um tvö ákveðin högg eru að ræða. Orðalagið „af ásettu ráði“ er aðalatriðið í d-lið. Tvö högg sem gerast í einni sveiflu er ekki tvíslag.
  5. snerti hann, búnaður hans eða spaði hans (í hendinni eða öðruvísi) netið, stólpana, vírinn, einliðaleikssúlurnar, reimina eða bryddinguna þegar boltinn er í leik.
  6. taki hann boltann á lofti áður en hann er kominn yfir netið.
  7. snerti boltinn hann eða búnað hans annað en spaðann í hendi eða höndum hans.
    Ábending: Það skiptir ekki máli hvort leikmaðurinn hafi verið innan eða utan vallarins þegar hann fékk boltann í sig.
  8. kasti hann spaða sínum á boltann og hittir hann.
  9. breyti hann af ásettu ráði lögun spaða í hrinu.

Dæmi 1: Í uppgjöfinni flýgur spaði leikmannsins sem átti uppgjöfina á netið áður en boltinn kemur við jörðu. Tapar hann stiginu?

Ákvörðun: Já, spaðinn hans snertir netið meðan boltinn er í leik.

Dæmi 2: Í uppgjöfinni flýgur spaði leikmannsins sem gaf upp á netið eftir að boltinn lendir utan gjafreitsins. Tapar hann stiginu?

Ákvörðun:Nei, hann missir eingöngu þá uppgjöf.

Dæmi 3: A og B eru að keppa á móti C og D. A gefur upp til D. C snertir netið áður en boltinn lendir á jörðu. Uppgjöfin lendir síðan utan gjafreitsins og er kallað úti. Tapar hann stiginu?

Ákvörðun: C og D höfðu tapað stiginu áður en kallað var úti, þar sem C kom við netið þegar boltinn var í leik.

Dæmi 4: Má leikmaður stökkva yfir netið á vallarhelming andstæðings síns á meðan boltinn er í leik?

Ákvörðun: Nei, hann tapar stiginu (sjá reglu 20 e))

Dæmi 5: A slær boltann þannig yfir netið að hann kemur aftur yfir á vallarhelming A. B nær ekki til boltans en hendir spaða sínum á boltann. Bæði spaðinn og boltinn lenda á vallarhelmingi A. A slær síðan boltann út fyrir völl B. Vinnur B stigið?

Ákvörðun: Nei, B tapar stiginu (sjá reglu 20 e) og h)).

Dæmi 6: Móttakandinn sem stendur fyrir utan gjafreitinn fær bolta frá uppgjöf í sig áður en hann lendir á jörðu. Tapar hann stiginu?

Ákvörðun: Sá leikmaður sem fékk boltann í sig tapar stiginu (sjá reglu 20 g)), undantekning sbr. reglu 14 b).

Dæmi 7: Leikmaður sem stendur fyrir utan völlinn slær eða grípur boltann áður en hann kemur við jörðu og telur stigið sér í hag af því að boltinn hefði örugglega ekki lent inn á vellinum.

Ákvörðun: Undir engum kringumstæðum getur hann fengið stigið. Grípur hann boltann tapar hann stiginu skv reglu 20 g). Blaki hann boltanum, sem lendir ekki inn á velli andstæðingsins, tapar hann stiginu skv. reglu 20 c). Blaki hann boltanum, sem lendir inn á velli andstæðingsins, heldur hrinan áfram.

Regla 21: Leikmaður hindrar andstæðinginn

Leikmaður tapar stiginu ef hann af ásettu ráði gerir eitthvað sem hindrar andstæðinginn í að slá boltann. En stöðvun er dæmd ef hindrunin er óviljandi.

Dæmi 1: Leikmaður snertir andstæðinginn þegar hann er að slá. Tapar hann stiginu?

Ákvörðun: Nei, nema dómari dæmi skv. reglu 21.

Dæmi 2: Þegar boltinn fer til baka yfir netið, teygir leikmaðurinn sem í hlut á sig yfir netið til að ná í boltann. Hvernig skal dæma ef leikmaður er hindraður í þessu af andstæðingi sínum?

Ákvörðun: Skv. reglu 21 er um stöðvun að ræða eða eða leikmaðurinn sem var hindraður fær stigið (sjá einnig reglu 25).

Dæmi 3: Er óviljandi tvíslag hindrun skv. reglu 21?

Ákvörðun: Nei.

Ábending: Móttakandinn kvartar yfir því að andstæðingurinn trufli sig þegar hann hendir frá sér seinni uppgjafarboltanum. Telji dómarinn að þetta eigi við rök að styðjast, skal hann fara fram á það við leikmanninn sem gefur upp að hann losi sig við seinni boltann á annan og betri hátt. Ef leikmaður tekur ekki ábendingu frá dómara, má dæma af honum stig eða reka hann úr keppni.

Regla 22: Bolti á línu

Bolti sem lendir á línu er talinn lenda inn á þeim reit sem sú lína umlykur.

Ábending: Leikmaður dæmir alla bolta á sínum eigin vallarhelming í leikjum þar sem ekki er dómari eða línuverðir. Ef leikmaður er ekki viss um að bolti er úti, þá skal hann dæma boltann inni.

Regla 23: Bolti snertir fasta fylgihluti

Ef leikmaður slær bolta sem lendir á föstum fylgihlut (nema neti, stólpum, einliðaleikssúlum, vír, reim eða bryddingu) áður en boltinn kemur við jörðu þá tapar hann stiginu. En ef boltinn lendir á föstum fylgihlut eftir að hann lendir á jörðu inn á vallarhelmingi andstæðingsins þá tapar andstæðingurinn stiginu.

Dæmi 1: Boltinn lendir á dómaranum eða stól hans. Leikmaðurinn staðhæfir að boltinn hefði lent inn á vellinum.

Ákvörðun: Hann tapar stiginu.

Regla 24: Bolti enn í leik

Bolti er enn í leik:

  1. snerti hann net, stólpa, vír, reim eða bryddingu svo framarlega sem hann kemur yfir á réttan völl.
  2. fari hann aftur yfir netið eftir að hann lenti á réttum vallarhelmingi. Leikmaðurinn sem á að slá hann má teygja sig yfir netið og slá hann þar svo framarlega sem hann, föt hans eða spaði snerta ekki net, stólpa, vír, einliðaleikssúlur, reim, bryddingu eða jörðina á vallarhelmingi andstæðingsins. Þetta á líka við um bolta frá uppgjöf.
  3. ef hann er sleginn utan við stólpa eða einliðaleikssúlur og lendir inn á réttum vallarhelmingi. Það skiptir ekki máli þó að hann fari ekki yfir hæð netsins.
  4. þó að spaðinn í hendi leikmannsins fari yfir netið eftir að hann hefur slegið boltann á eigin vallarhelmingi.
  5. lendi hann á bolta sem liggur á vellinum. Þetta á líka við um bolta frá uppgjöf.
    Ábending: Þetta á við um bolta sem liggur á vellinum þegar uppgjöf hefst. En stöðvun er kölluð ef bolti í leik lendir á bolta sem kom inn á völlinn eftir uppgjöf. Ef bolti í leik lendir á bolta sem leikmaður lætur frá sér eftir uppgjöf, tapar sá leikmaður stiginu, hvort sem þetta gerist inn á eða utan vallar (sjá ábendingu í reglu 20 (g) og dæmi 7 í reglu 25).

Athugasemd: Ef spilaður er einliðaleikur á tvíliðaleiksvelli með eiliðaleikssúlum, þá eru stóparnir og sá hluti nets, vírs og bryddingar fyrir utan einliðaleikssúlurnar alltaf fastir fylgihlutir. Bolti er enn í leik sem fer undir vírinn á milli einliðaleikssúlu og stólpa án þess að snerta net, vír eða stólpa og lendir inn á réttum vallarhelmingi.

Ábending: Aftur á móti í tvíliðaleik tapast stigið.

Dæmi 1: Bolti, sem er á leið út af, kemur við stólpa eða einliðaleikssúlu en lendir inn á réttum vallarhelmingi. Er hann enn í leik?

Ákvörðun: Já (sjá reglu 22 (e)), nema í uppgjöf (sjá reglu 10 (c)).

Dæmi 2: Má leikmaður slá boltann ef hann heldur á spaðanum með báðum höndum?

Ákvörðun: Já.

Dæmi 3: Bolti frá uppgjöf eða bolti í leik lendir á bolta sem liggur á vellinum. Er stig unnið eða tapað?

Ákvörðun: Hvorugt, boltinn er enn í leik. Ef dómarinn er ekki viss um að réttur bolti er í leik, skal hann kalla stöðvun.

Dæmi 4: Má leikmaður nota fleiri en einn spaða þegar bolti er í leik?

Ákvörðun: Nei. Tennisreglur miðast við að notaður sé einn spaði þegar bolti er í leik.

Dæmi 5: Má leikmaður fara fram á að bolti eða boltar sem liggja á velli andstæðingsins séu fjarlægðir?

Ákvörðun: Já, en ekki á meðan bolti er í leik.

Regla 25: Hindrun

Sé leikmaður hindraður í því að slá boltann af einhverjum honum óviðráðanlegum orsökum öðrum en föstum fylgihlutum vallarins skal dæma stöðvun, sbr. þó reglu 21.

Dæmi 1: Áhorfandi er fyrir leikmanni sem nær ekki að slá boltann. Má leikmaðurinn biðja þá um stöðvun?

Ákvörðun: Já, ef dómaranum finnst að þetta hafi verið af óviðráðanlegum orsökum, en ekki ef kenna má um föstum fylgihlutum eða uppsetningu svæðisins.

Dæmi 2: Leikmaður er hindraður eins og í dæmi 1 og dómarinn kallar stöðvun. Fyrri uppgjöf var röng. Hefur leikmaðurinn sem gaf upp rétt á tveimur uppgjöfum?

Ákvörðun: Já, þar sem bolti er í leik þegar stöðvun er kölluð skal stigið spilað á ný, en ekki aðeins seinni uppgjöf.

Dæmi 3: Má leikmaður biðja um stöðvun sbr. reglu 25 vegna þess að hann hélt að andstæðingurinn hafi verið hindraður og þar af leiðandi átti ekki sjálfur von á boltanum?

Ákvörðun: Nei.

Dæmi 4: Er í lagi að bolti í leik hitti annan bolta í lofti?

Ákvörðun: Þetta er stöðvun, nema boltinn í loftinu komi frá leikmanni, þá skal dæma skv. reglu 21.

Dæmi 5: Ef dómari kallar brot eða bolta úti á röngum forsendum, en leiðréttir sig strax, hvað gildir?

Ákvörðun: Þetta er stöðvun, nema að áliti dómara hafi hvorugur leikmaður verið hindraður í leik. Í því tilfelli gildir leiðréttingin.

Dæmi 6: Ef fyrri uppgjöf var röng og sá bolti hindrar móttakanda í seinni uppgjöf, má móttakandinn biðja um stöðvun?

Ákvörðun: Já. Hafi hann haft tækifæri til að fjarlægja boltann af vellinum og ekki gert það, þá má hann ekki biðja um stöðvun.

Dæmi 7: Er leyfilegt að bolti sem er í leik snerti kyrrstæðan hlut eða hlut á hreyfingu, sem er á vellinum?

Ákvörðun: Það er leyfilegt nema kyrrstæði hluturinn hafi komið inn á völlinn eftir uppgjöf. Þá er stöðvun. Ef boltinn snertir hlut á hreyfingu, hvort sem hluturinn er við eða yfir vellinum, þá er stöðvun.

Dæmi 8: Hvernig skal dæma þegar fyrri uppgjöf var röng en seinni uppgjöf rétt og þá er stöðvun skv. reglu 25 eða dómari er ekki viss um hvernig skal dæma stigið?

Ákvörðun: Stigið er spilað á ný, þ.e.a.s. leikmaðurinn sem gaf upp fær tvær uppgjafir (ábending: sjá reglu 13).

Regla 26: Stigakerfi í lotum

Sá sem vinnur fyrsta stigið fær 15, en sá sem tapar fær 0. stig leikmannsins sem gefur upp eru alltaf sögð á undan. Ef sá sem gefur upp vinnur fyrsta stigið standa leikar: 15-0. ef sá sem gefur upp tapar fyrsta stigi standa leikar: 0-15. Sá sem vinnur næst stig (2. stig unnið) er kominn upp í 30. Fyrir 3. stigið er leikmaðurinn kominn með 40. Næsta stigið, 4. stigið, gefur lotu ef andstæðingurinn er a.m.k. tveimur stigum lægri. Vinni báðir leikmenn 3 stig þ.e.a.s. standi leikar: 40-40 er kallað jafna. Þegar sá sem gefur upp vinnur stig eftir jöfnu, standa leika: forskot inn. Tapi sá sem gefur upp standa leikar: forskot út. Eftir að jafna kemur upp, verður annar leikmanna að vinna tvö stig í röð til þess að vinna lotuna. Vinni leikmenn bara eitt stig hvor, verður aftur jafna og leikið er áfram þar til öðrum tekst að vinna tvö stig í röð.

Ábending: Ef enginn dómari er, skal sá sem gefur upp segja hátt og skýrt hvernig leikar standa svo að andstæðingur hans heyri. Í byrjun hverrar lotu skal hann segja hvernig settir stendur, og í hvert skipti sem hann gefur upp segir hann hvernig stigin standa í lotunni.

Regla 27: Stigakerfi í setti

  1. Löng sett: Sá leikmaður sem fyrr vinnur sex lotur vinnur sett. Þó verður hann að hafa tvær lotur fram yfir andstæðing sinn og er haldið áfram þar til því er náð.
  2. Oddur: Oddur er stigakerfi sem nota má í staðinn fyrir löng sett í lið a), en það verður að ákveða fyrir leikinn hvort kerfið skal nota.

Oddareglur:

Oddur skal notaður þegar leikar standa sexx lotur á móti sex. Mótsreglur segja til um hvort og hvenær oddur skuli notaður eða ekki.

Oddur í einliðaleik.

    1. Í oddi fær leikmaður 1 fyrir hvert stig unnið. Leikmaður sem er fyrri til að vinna 7 stig vinnur lotuna og settið. Þó verður hann að hafa tvö stig fram yfir andstæðinginn í lotunni. Standi leikar 6-6 er haldið áfram þar til annar leikmanna vinnur tvö stig í röð.
    2. Leikmaðurinn sem gefur upp fyrir fyrsta stigið og stendur hægra megin við stubbinn. Andstæðingur hans gefur upp fyrir annað og þriðja stig. Fyrir annað stigið stendur hann vinstra megin við stubbinn, en þriðja stigið hægra megin við stubbinn. Þannig skiptast þeir á um að gefa upp fyrir tvö stig í röð þar til oddur er unninn og þar með settið.
    3. Ef staða í uppgjöf er röng skal það leiðrétt um leið og það uppgötvast, en öll stig standa.
    4. Leikmenn skipta um vallarhelming eftir hver sex stig og í lok oddsins.
    5. Oddurinn jafngildir einni lotu varðandi reglur um nýja bolta. Ef nýir boltar eiga að komi í byrjun oddsins skal fresta því þar til önnur lota í næsta setti hefst.

Oddur í tvíliðaleik.

Oddur gildir í tvíliðaleik eins og í einliðaleik. Leikmaður sem á uppgjöfina gefur upp fyrir fyrsta stigið. Síðan gefur hver leikmaður upp fyrir tvö stig í sömu röð og þeir gáfu upp í settinu þar til oddurinn er unninn og þar með settið.

Leikmaðurinn (leikmenn í tvíliðaleik), sem gaf fyrstur upp í oddinum, er móttakandinn í fyrstu lotu í næsta setti á eftir.

Dæmi 1: Leikar standa 6-6 í lotum. Oddur er notaður þó að mótsreglur segi að löng sett skulu spiluð. Standa stigin?

Ákvörðun: Ef mistökin uppgötvast strax eftir fyrsta stigið stendur það, en mistökin skulu leiðrétt. Ef mistökin uppgötvast seinna skal oddurinn spilaður til enda.

Dæmi 2: Leikar standa 6-6 í lotum. Venjuleg lota er spiluð þá að mótsreglur segi að oddur skuli notaður. Standa stigin?

Ákvörðun: Ef mistökin uppgötvast strax eftir fyrsta stig skal leiðrétt strax. Ef mistökin uppgötvast seinna skal halda áfram að spila langt sett, nema leikar ná að standa 8-8 (eða 10-10, 12-12 o.s.frv.) í lotum þá skal oddurinn notaður.

Dæmi 3: leikmaður í tvíliðaleiksoddi tekur á móti þegar meðspilari hans á að gera það. Hvað skal gera?

Ákvörðun: Ef mistökin uppgötvast strax eftir fyrsta stigið, skal leiðrétt en stigin standa. Ef mistökin uppgötvast seinna skal breytt röð halda sér.

Dæmi 4: Leikmaður í oddi gefur upp þegar hann á ekki að gefa upp. Hvað skal gera?

Ákvörðun: Sjá ákvörðun fyrir dæmi 3.

Regla 28: Hámarksfjöldi setta

Hámarksfjöldi setta í keppni er 5 fyrir karlmenn en 3 fyrir kvennmenn.

Regla 29: Hlutverk dómara

Þegar dómari dæmir í leik eru ákvarðanir hans endanlegar. Þegar yfirdómari er á staðnum, skulu áfrýjanir vegna úrskurðar dómara varðandi reglur skilað til hans og eru ákvarðanir yfirdómara endanlegar.

Í leik þar sem eru aðstoðadómarar (línuverðir, netdómari, stöðubrotadómari) skulu ákvarðanir þeirra vera endalegar nema greinileg mistök hafa orðið að áliti dómara. Hann má breyta ákvörðun aðstoðardómara eða dæma stöðvun. Þegar aðstoðardómari getur ekki tekið ákvörðun, verður hann strax að láta dómarann vita, sem tekur þá sjálfur ákvörðun. Geti dómarinn ekki tekið ákvörðun, dæmir hann stöðvun.

Ef yfirdómari er á vellinum í “Davis Cup” móti eða liðakeppni, getur hann breytt hvaða ákvörðun sem er eða látið dæma stöðvun. Yfirdómari má að vild fresta keppni vegna myrkurs, veðurs eða ásigkomulagi valla hvenær sem er. Alltaf þegar frestað er skulu stigin standa og staða á vellinum halda sér nema dómarar og leikmenn samþykki einróma annað.

Dæmi 1: Dómari dæmir stöðvun en leikmaður heldur því fram að stigið skuli ekki spilað á ný. Má fara fram á ákvörðun yfirdómara?

Ákvörðun: Já. En dómari skal fyrst ákveða hvort þetta sé spurning um túlkun tennisreglna. Ef hann er ekki viss og ef leikmaðurinn áfrýjar dómstúlkun hans þá skal kallað á yfirdómara og ákvörðun hans er endanleg.

Dæmi 2: Bolti er dæmdur úti, en leikmaður telur hann inni. Má yfirdómari dæma?

Ákvörðun: Nei. Þetta er spurning um hvað gerðist og ákvarðanir dómara á vellinum eru endanlegar.

Dæmi 3: Má dómari leiðrétta kall línuvarðar í lok hrinu, telji hann að línuverðinum hafi orðið á greinileg mistök í hrinunni?

Ákvörðun: Nei, nema andstæðingurinn hafi verið hindraður. Annars ber dómara að leiðrétta ákvörðun línuvarðar strax (sjá reglu 17, dæmi 1).

Dæmi 4: Línuvörður kallar bolta úti. Dómarinn hélt að boltinn væri inni en sá það ekki greinilega. Getur hann breytt ákvörðun línuvarðar?

Ákvörðun: Nei, dómari verður að vera alveg viss til þess að breyta ákvörðun línuvarðar.

Dæmi 5: Má línuvörður leiðrétta ákvörðun sína eftir að dómarinn kallar upp hvernig stigin standa?

Ákvörðun: Já, línuvörður má koma með leiðréttingu ef hann gerir það strax.

Dæmi 6: Leikmaður mótmælir ákvörðun línuvarðar um að bolti sé úti. Má dómari breyta ákvörðun línuvarðar?

Ákvörðun: Nei, dómari má aldrei breyta ákvörðun línuvarðar vegna mótmæla leikmanna.

Regla 30: Samfelldur leikur og hvíldartímar

Leiknum skal haldið áfram án tafa frá fyrsta uppgjöf þar til leiknum er lokið og farið eftir leikreglum.

  1. Ef fyrri uppgjöf er röng skal hefja seinni uppgjöf strax á eftir. Móttakandinn verður að vera í takt við leikmanninn sem gefur upp og verður að vera tilbúinn þegar gefið er upp. Þegar skipt er um vallarhelming má í mesta lagi líða ein og hálf mínúta frá því að seinasti bolti í lotu er úr leik þar til uppgjöf í næstu lotu hefst.Dómari ákveður hvort aðstæður leyfa leiktöf. Mótsstjórn alþjóðamóta eða liðakeppni sem viðurkennd eru af ATS má ákvarða tíma sem leyfður er milli stiga, en sá tími má aldrei verða meira en 30 sekúndur.
  2. Leik má ekki stöðva, fresta eða trufla eingöngu í þeim tilgangi að leikmaður nái sér líkamlega. Ef leikmenn slasast í leiknum má dómarinn veita 3 mínútna hvíld fyrir það slys einu sinni í leiknum. Mótsstjórn alþjóðamóta og liðakeppni sem viðurkennd eru af ATS má framlengja 3 mínútna hvíld í 5 mínútur.

Dæmi 1: Leikur hefur ekki verið stöðvaður, en leikmaður kvartar yfir því að hann sjái ekki vegna móðu á gleraugum sínum og biður um frestun leiksins. Er þetta leyft?

Ákvörðun: Nei, allir leikmenn eru jafnir hvað varðar frestun leiks, þótt sá sem er með gleraugu standi verr að vígi.

Ábending: slys verða að vera aðgreind frá venjulegri líkamsþreytu. Slys verður að vera sjáanlegt. Dæmi um slys eru m.a. blæðingar, að fá eitthvað í augað, tognanir, ef leikmaður dettur eða rekst á eitthvað. Minnkandi geta vegna fyrri meiðsla er ekki slys, nema að þau verði fyrir sérstakri áreitni í leiknum. Eðlileg þreyta er m.a. krampi eða svimi. Slasist leikmaður í leik getur hann farið fram á 3 mínútna leikhlé einu sinni vegna slyssins. Leikmaðurinn verður að biðja um hlé vegna slyssins áður en skipt er næst um vallarhelming. Við slíka beiðni getur dómarinn eða yfirdómari ákveðið:

  1. að leik verði haldið áfram þar til lotu er lokið og síðan veitt slysa leikhlé, eða
  2. stöðvað leikinn strax, en 3 mínútna slysaleikhlé hefst ekki fyrr en læknir eða einhver, sem getur hugað að meiðslum leikmannsins, er kominn á staðinn. Ef meira en 15 mínútur líða frá því að slysið varð og leikur ekki hafinn aftur skal refsa leikmanni eftir refsikerfinu: áminning, stig, lota, úr leik. Ef slysaleikhlé er veitt þegar skipt er um vallarhelming, fær leikmaðurinn fjórar og hálfa mínútu samtals. Lengri töf skal refsað. Það má huga að leikmanni í slysahlé og við vallarskipti með samþykki dómarans. Ef leikmaður meiðist í upphitun mega ekki líða meira en 15 mínútur áður en hann heldur áfram, annars tapar hann leiknum. Í leik þar sem enginn dómari er hefur yfirdómari mótsins eða fulltrúi hans þrjár mínútur til að athuga meiðslin. Hann ákveður hvort leikmaðurinn þarf lengri tíma en tekur fullt tillit til andstæðingsins. Leikmanni er aldrei leyft að fara af leikvellinum án leyfis yfirdómara eða fulltrúa hans og ekki mega líða meira en 15 mínútur frá slysi þar til haldið er áfram eða leikurinn gefinn. (Það er ekki hægt að nota refsikerfið þar sem ekki er dómari á vellinum.) Slasaður leikmaður má ekki yfirgefa leikvöllinn. Ef leikmaður þarf nauðsynlega að nota salerni, er það leyft og ekki talið leikþreyta.
  3. Dómarinn má veita leikhlé ef búnaður leikmannsins (ekki þó spaðinn) aflagast þannig að ógerlegt eða hættulegt er fyrir leikmanninn að halda áfram.
    Ábending: Linsur og gleraugu eru hluti af búnaði leikmannsins.
  4. Dómari má, hvenær sem , stöðva leik um stundarsakir eða fresta, telji hann það nauðsynlegt.
    Ábending: Ef leik er haldið áfram eftir meira en 10 mínútna leikhlé vegna veðurs eða einhvers annars, er venjulega upphitunartími leyfður aftur. Boltaskipti breytast ekki. Enginn upphitunartími er leyfður ef leikhlé var minna en 10 mínútur (sjá reglu 29).
  5. Eftir 3 sett (en 2 sett hjá konum) má taka tíu mínútna leikhlé. Ef leik er frestað til næsta dags, má ekki taka tíu mínútna leikhlé fyrr en eftir þriðja sett (annað sett hjá konum) þessa dags. Ef tíu mínútna leikhlé hefur verið veitt er ekki hægt að taka tíu mínútna hlé aftur fyrr en eftir þrjú sett (tvö hjá konum) hafi verið leikin frá síðasta leikhlé.
    Mótsstjórn má breyta þessari reglu svo framarlega sem það er tekið fram áður en mótið hefst.
    Sérákvæði: Þegar keppt er í stúlknaflokki, 16 ára og yngri og drengjaflokki, 13 ára og yngri er skylt að taka tíu mínútna leikhlé eftir annað sett.
  6. Mótsstjórn verður að tilkynna upphitunartíma áður en mótið hefst. Upphitunartími má ekki vera lengri en fimm mínútur á leikvelli.
  7. Dómari verður að fylgja því refsikerfi sem mótsstjórn ákveður.
  8. Dómari má dæma leikmann úr leik vegna endurtekins brots á reglunni um samfelldan leik, enda búinn að gefa leikmanninum áminningu.

Regla 31: Þjálfun

Í liðakeppni má leikmaður fá tilsögn frá fyrirliðanum sem er á vellinum þegar skipt er um vallarhelming eftir lotu en ekki þegar skipt er í oddi. Leikmaður má ekki fá tilsögn í öðrum leikjum. Dæma má leikmann úr leik ef hann lætur ekki segjast. Dómari skal refsa leikmanni eftir refsikerfi mótsstjórnar.

Dæmi 1: Skal áminna eða reka úr leik ef tilsögn er lítt áberandi?

Ákvörðun: Dómari verður að taka afstöðu um leið og hann verður þess var að verið er að gefa tilsögn. Leikmaður má benda dómara á að verið að er gefa tilsögn.

Dæmi 2: Má leikmaður fá tilsögn ef hann yfirgefur völlinn í leikhlé?

Ákvörðun: Já, þegar leikmaður er ekki á vellinum, er ekki hægt að koma í veg fyrir tilsögn.

Regla 32: Boltaskipti

Skipta á um bolta eftir að ákveðinn fjölda lota. Ef mistök verða skal ekki skipta um bolta fyrr en sá leikmaður (eða meðspilari hans), sem átti að fá nýja bolta í uppgjöf, gefur upp næst. Og frá þeim boltaskiptum skal líða sami fjöldi lota eins og upphaflega var ákveðið.

Tvíliða- og tvenndarleikur

Regla 33

Framangreindar reglur gilda í tvíliða- og tvenndarleik nema í eftirtöldum reglum.

Regla 34: Tvíliða- og/eða tvenndarvöllurinn

Völlurinn er 10,97 m á breidd, þ.e. 1,37 m breiðari en einliðaleiksvöllurinn sitt hvorum megin, en gjafreitir og enda línur eru eins og í einliðaleiknum (sjá reglu 1). Einliðaleikshliðarlínur frá gjaflínu að endalínu hafa ekki gildi í tvíliðaleik og má sleppa.

Dæmi 1: Í tvíliðaleik vill leikmaðurinn sem gefur upp standa í öðru horni vallarins þar sem tvíliðaleikshliðarlínan endar. Er það leyfilegt eða verður sá sem gefur upp að standa milli stubbsins og einliðaleikshliðarlínunnar?

Ákvörðun: Sá sem gefur upp má standa hvar sem er fyrir aftan endalínu á milli stubbsins og tíliðaleikshliðarlínunnar.

Regla 35: Rétt röð uppgjafar í tvíliða- og tvenndarleik

Röðina verður að ákveða í byrjun hvers setts á eftirfarandi hátt.

Þeir sem eiga uppgjöf í fyrstu lotu hvers setts ákveða hvor þeirra skal gefa upp og andstæðingarnir ákveða hvor þeirra skal gefa upp í annarri lotu. Meðspilari þess leikmanns sem gefur upp í fyrstu lotu gefur upp í þriðju lotu, og meðspilari þess sem gaf upp í annarri lotu gefur upp í fjórðu lotu. Þessi röð helst út settið.

Dæmi 1: Í tvíliðaleik mætir einn leikmaður ekki til leiks en meðspilari hans vill keppa einn á móti andstæðingunum. Er það leyfilegt?

Ákvörðun: Nei.

Regla 36: Rétt röð við að taka á móti uppgjöf í tvíliða- og tvenndarleik

Röðina verður að ákveða í byrjun hvers setts á eftirfarandi hátt.

Þeir sem taka á móti uppgjöf í fyrstu lotu ákveða hvor þeirra tekur á móti fyrstu uppgjöfinni og hann tekur ávallt á móti fyrstu uppgjöf í annarri hvorri lotu út settið. Andstæðingarnir ákveða á sama hátt hvor þeirra tekur á móti fyrstu uppgjöfinni í annarri lotunni og hann tekur ávallt á móti fyrstu uppgjöf á annarri hvorri lotu út settið. Meðspilarar skiptast á um að taka á móti uppgjöf út lotuna.

Dæmi 1: Er leyfilegt í tvíliðaleik að meðspilari leikmannsins sem gefur upp eða meðspilari leikmannsins sem tekur á móti standi þannig að leikmaðurinn sem tekur á móti sjái ekki fyrir honum?

Ákvörðun: Já, þeir mega standa hvar sem þeir vilja sínum megin við netið, inn á eða utan vallarins.

Regla 37: Uppgjöf í ótíma í tvíliða- og tvenndarleik

Ef leikmaður gefur upp í ótíma, skal það leiðrétt strax og mistökin uppgötvast en öll stig og rangar uppgjafir standa. Ef heil lota líður áður en mistökin uppgötvast helst þessi breytta röð.

Ábending: Undantekning: sjá reglu 27, dæmi 3.

Regla 38: Móttaka í ótíma í tvíliða- og tvenndarleik

Ef móttakandi tekur á móti uppgjöf í ótíma skal sú röð haldast óbreytt út lotuna. En næst þegar þetta lið á að taka á móti uppgjöf skulu meðspilarar taka á móti í þeirri röð eins og upphaflega var ákveðið.

Ábending: Undantekning: sjá reglu 27, dæmi 3.

Regla 39: Röng uppgjöf í tvíliða- og tvenndarleik

Uppgjöf er röng sbr. Reglu 10, eða ef boltinn lendir á meðspilara leikmannsins sem gefur upp eða einhverju sem hann er í eða ber. Ef uppgjafarbolti lendir á meðspilara móttakanda eða einhverju sem hann er í eða ber og er ekki stöðvun (sjá reglu 14 (a)) áður en hann lendir á jörðu, vinnur sá sem á uppgjöfina stigið.

Regla 40: Bolti sleginn í tvíliða- og tvenndarleik

Annar hvor leikmanna í liði slær boltann yfir til andstæðinganna og annar hvor þeirra slær til baka. Ef leikmaður kemur við bolta í leik með spaða sínum er það brot við þessa reglu og andstæðingarnir fá stigið.

Ábending: Þegar bolti er sleginn yfir netið má aðeins annar leikmanna í liði slá boltann. Það er brot ef báðir slá boltann samtímis eða á eftir hvor öðrum. Þeir sem spila saman þurfa ekki að slá boltann til skiptis. Það er ekki brot sláist spaðar saman ef það er greinilegt að aðeins annar spaðinn kom við boltann.

Nokkur tennisorð

Enska íslenska
ace (service) ás (uppgjöf sem móttakandi nær ekki að snerta)
advantage forskot
approach aðför (að neti)
break-point brjótur
change skipti (um vallarhelming)
clay court leirvöllur
court völlur
deuce jafna
drive grunnslag
drop shot stoppbolti
double bounce gamall bolti (kom tvisvar í jörðu)
double fault tvífeill (við uppgjöf)
fault feill (við uppgjöf)
footfault stöðubrot
game lota
halfvolley hálfblak (boltinn sleginn rétt eftir að hann hefur snert jörðu)
let stöðvun (bolti kemur við net í uppgjöf)
linesman línudómari
lob svif
love núll
match leikur
match ball sigurbolti
overhead skellur/smass
passing shot fleygur
post stólpi
racquet spaði
rally hrina
ranking hæfnislisti
receiver móttakandi
referee yfirdómari
return svar
score staða
seeding röðun (sterkustu tennisleikara í keppni þanni að þeir mætast ekki of snemma)
service uppgjöf
server sá sem gefur upp
set sett
set ball settbolti
slice undirsnúningur
smash skellur/smass
stroke slag
tie-break oddalota
umpire yfirdómari
volley blak
walkover gefinn leikur